Ögmundur Sigurðsson, merkur skólamaður
Í síðasta þætti sagði m.a. frá Ögmundi Sigurðssyni, sem kenndi tæpan áratug við Gerðaskóla. Hann var merkur fyrir margra hluta sakir og verður því sagt meira af honum hér og birt mynd af honum hér.
Ögmundur fæddist í Ölfusi 1859. Hann gekk í Möðruvallaskóla 1880–1882, fyrstu árin sem sá gagnfræðiskóli starfaði og var þar nemandi Þorvaldar Thoroddsen. Þremur árum síðar fór hann til náms við Kennaraskólann í Kaupmannahöfn og lauk þaðan kennaraprófi, einn af fyrstu Íslendingunum. Síðar var hann eitt ár við kennaranám í Chicago.
Líklegt er að kennslan sem Ögmundur naut í Möðruvallaskóla hafi mótað viðhorf hans til náms og kennslu. Þorvaldur Thoroddsen lýsir þeirri kennslu þannig: „Kensluna reyndum við að gera eins praktiska eins og hægt var og sníða hana eftir þörfum nemenda, sem voru mjög mismunandi að aldri og þroska fyrstu árin. .... Hjer voru kennarar miklu betur settir en í Reykjavík, miklu meiri persónuleg kynning milli pilta og kennara, flestir höfðu mikinn áhuga á náminu, og langaði til að fræðast um ýmislegt, og lærðu þeir sumir eflaust alt eins mikið utan tíma með samtali við kennara eins og í sjálfum kenslustundunum.“ Ljóst má vera að Ögmundur Sigurðsson hefur þarna notið góðrar menntunar hjá þeim Þorvaldi, Þórði og Jóni, sérstaklega í náttúrufræði og landafræði hjá Þorvaldi.
Ögmundur gerðist samstarfsmaður Þorvaldar Thoroddsen við hans víðkunnu landafræði- og jarðfræðirannsóknir strax sumarið eftir útskrift úr Möðruvallaskóla. Í fjórtán sumur, á árunum 1882 til 1896, var hann fylgdarmaður og hjálparhella hans á vísindaferðum um landið. Það kemur fram í skrifum Þorvaldar hve mikils hann mat Ögmund. Eftir að þeim ferðalögum lauk var Ögmundur fenginn til fylgdar ýmsum vísindamönnum sem rannsökuðu landið, til að mynda Helga Pjeturss, Paul Hermann og Walter von Knebel. Var hann á tímabili sá Íslendingur sem mest hafði ferðast um landið.
Árið 1887 réðist Ögmundur sem skólastjóri að barnaskólanum í Garði, eins og áður var lýst. Árið 1896 réðist hann að Gagnfræðaskólanum Flensborg í Hafnarfirði, fyrst sem kennari til 1908 – á þeim tíma sem Flensborg var m.a. kennaraskóli. Síðan var hann þar skólastjóri, þar til hann lauk störfum árið 1930.
Ögmundur, Jón Þórarinsson og Jóhannes Sigfússon stofnuðu árið 1888 Tímarit um uppeldi og menntamál og kom það út í fimm ár. Hann átti einnig þátt í að stofna Hið íslenska kennarafélag 1889.
Ögmundur Sigurðsson var fágaður í fasi og vandaði málfar sitt án skrúðmælgi. Hversdagslegustu viðburðir urðu honum söguefni sem gott reyndist á að hlýða. Honum veittist auðvelt að fá menn til samræðna, jafnvel feimna sveitastráka. Nemendur báru fyrir honum virðingu, vildu ógjarnan reynast honum andsnúnir. Þyrfti Ögmundur að blanda sér í mál gerðist það með tvenns konar hætti: djúpri þögn eða þykkjulausu samtali, engu líkara en tveir jafningjar ræddust þá við.
Heimild:
Grein um Ögmund Sigurðsson, menntun hans og kennsluaðferðir, í tímaritinu Netlu,
https://skemman.is/bitstream/1946/7824/1/008.pdf
Næsti þáttur byggir á grein sem Ögmundur skrifaði 1890, um skóla á Suðurnesjum.